Það sem af er apríl mánuði hefur verið frekar líflegt við höfnina á Sauðárkróki. Eins og áður hefur komið fram er skip frá Samskipum farið að venja komur sínar hingað og þann 17. apríl lestaði það 19 gáma af frosnum fiski og 4 gáma af steinull samtals ríflega 500 tonn.
Málmey SK-1 kom úr norðurhöfum þann 10 apríl með 315 tonn af frosnum afurðum og Örvar SK-2 landaði þann 12 apríl 298 tonn af frosnum afurðum, þar af var rækja 165 tonn. Klakkur SK-5 hefur landað þrisvar í mánuðinum samtals um 300 tonnum þar af þorskur um 243 tonn.
Röst SK-17 hefur landað í tvígang samtals 24 tonnum af rækju fyrir Dögun og Þinganes SF-25 landað einu sinni 21 tonni af blönduðum afla.
Á Sauðárkróki hafa 8 bátar landað um 162 tonn af grásleppu í 91 róðri og á Hofsósi hafa 2 bátar landað um 60 tonnum í 25 róðrum.
Í kvöld er svo flutningaskipið Joy væntanlegt með 1.800 tonn að áburði og á morgun er flutningaskipið Svanur væntanlegt með um 400 tonn af salti. Eftir helgina er svo flutningaskipið Vestlandia væntanlegt með vörur fyrir K.S., og lestar einnig frosið dýrafóður.
Þá eru bryggjueiningar í nýju smábátahöfnina byrjaðar að koma, en þeim er keyrt frá Borgarnesi, þar sem þær eru framleiddar, jafnharðan og þær eru klárar til flutnings.