Sagan

Sauðárkrókshöfn.

       Á síðustu þremur áratugum 19. aldar myndaðist þéttbýli á Sauðárkróki við vestanverðan Skagafjarðarbotn, í víkinni milli þáverandi ósa Gönguskarðsár og Sauðár, sem kallaður var Krókurinn.  Farvegi beggja þessara áa hefur verið breytt frá því að búseta hófst á Sauðárkróki svo nú falla þær í sjó nokkurn spöl frá fyrri ósum.  Helstu starfsgreinar íbúanna tengdust verslun og ýmiss konar handíðum.  Bátaútgerð var nokkuð stunduð á Sauðárkróki þótt lendingin þar væri opin og óvarin fyrir norðlægum áttum og þar væri raunar alger hafnleysa fyrir tíma hafnarmannvirkja.

       Framburður straumvatna hefur haft mikil áhrif á byggingu hafnarmannvirkja á Sauðárkróki.  Vesturkvísl jökulfljótsins Héraðsvatna fellur austanvert í víkina sem bærinn stendur við og ber með sér mikið af fíngerðu efni; sandi og jökulleir.  Norðan við bæinn er Gönguskarðsáreyri, mynduð af framburði Gönguskarðsár.  Norðanaldan ber árframburðinn jafnan inn með ströndinni allt inn á Borgarsand við fjarðarbotn.  Eru þessir efnisflutningar náttúrunnar eitt helsta vandamálið sem við er að glíma í hafnargerð á Sauðárkróki og hafa orðið til þess að miklar breytingar hafa orðið á ströndinni með tilkomu hafnarmannvirkjanna sem byggð hafa verið.

Sjóvarnargarður.

       Um 1880 voru íbúar Sauðárkróks teknir að velta því fyrir sér hvað unnt væri að gera til að bæta hafnarskilyrði á staðnum.  Ekki varð af neinum framkvæmdum þá, en árið 1894 var gerður grjótgarður út af Gönguskarðsáreyri í því skyni að draga úr efnisburði frá Gönguskarðsá.  Þessi garður var veigalítill enda gerður með handverkfærum einum saman og kom hann fyrir lítið.  Þótt þess sjáist merki að um aldamótin 1900 þætti mörgum Sauðárkróksbúum mikill bagi að hafnleysinu á staðnum var þó landbrot yst í þorpinu meira áhyggjuefni enda voru húseignir þar í hættu af þessum sökum.  Árið 1903 var því gerð áætlun um varnargarð, um 150 m langan, út frá Gönguskarðsáreyri.  Verslunarfyrirtæki á Sauðárkróki stóðu straum af gerð hans enda áttu þau mestra hagsmuna að gæta því það voru hús þeirra sem lágu við tjóni.  Notaðir voru timburbúkkar fylltir með grjóti og möl sem ætlað var að verja verslunarhúsin á sjávarbakkanum.  Var bætt við búkkum eftir því sem möl og sandur safnaðist að þeim, en eftir að miklar skemmdir urðu á þessum öldubrjóti árið 1929 var þessari viðleitni hætt.

       Sjóvarnargarðurinn sem náði frá bryggju um 140 m til norðurs var steinsteyptur sumarið 1925 en stóð stutt því um haustið hvarf meiri hluti hans í brimróti.  Hann var þá endurbyggður og var gerð hans lokið um 1930 og stóð hann eftir það um áratuga skeið.

Bryggja.

       Allt þar til bryggjusmíð hófst notuðust Sauðkrækingar við flotbryggjur eða trébúkka eins og gert var á mörgum öðrum stöðum þar sem hafnarskilyrði voru léleg.  Var þeim skotið fram þegar verið var að landa varningi úr kaupskipum með uppskipunarbátum, eða þegar fiskibátar komu að með afla, en dregnir á land þess á milli.

       Undirbúningur að varanlegri bryggjugerð á Sauðárkróki hófst árið 1909 þegar Thorvald Krabbe verkfræðingur gerði þar mælingar og athuganir fyrir beiðni sýslunefndar Skagfirðinga og lagði í framhaldi af þeim fram tillögu að staurabryggju. Í bréfi sem með henni fylgdi sagði:

       „Eins og kunnugt er liggur Sauðárkrókshöfn fyrir opnu hafi að heita má; dálítið dregur samt tanginn norðan við kauptúnið (þar sem Gönguskarðsá rennur út) úr briminu í norðanátt, en oft er ómögulegt að komast á sjó sökum brims - jafnvel þótt sjórinn sé góður - vegna þess að bryggju, sem nær út fyrir brimið, vantar algerlega.  Það er vitanlega hægt að bæta höfnina með því að byggja hafnargarða sem mynda kví ... en þannig löguð höfn yrði ákaflega kostnaðarsöm; bæði er svo stór höfn ætíð dýr, en ekki er til neins að gera minni kröfur þegar eins hagar til og hér, að sandur og smámöl er allt í kring. - Og þar að auki er Sauðárkrókur illa settur með byggingarefni, sérstaklega stórgrýti".

       Bréf verkfræðingsins lýsir vel þeim aðstæðum sem við var að fást á Sauðárkróki og augljóst að engin tök voru á því að gera þar örugga höfn enda var ákveðið að smíða bátabryggju en láta hafnargerð bíða síns tíma.  Smíði bryggjunnar, sem styrkt var af opinberu fé, hófst í ársbyrjun 1916 og fullgerð var hún 71 m að lengd og 3,75 m að breidd.  Þannig var hún byggð að grjótfylltar timburkistur voru látnar mynda undirstöðu hennar en staurarnir ekki reknir nema skammt niður.  Þessi aðferð reyndist illa því í óveðri haustið 1916 urðu talsverðar skemmdir á nýju bryggjunni.  Var hún endurbyggð árið eftir sem hefðbundin staurabryggja en aðeins höfð 45 m að lengd.  Árið 1925 var hún bæði lengd og breikkuð og gagnaðist eftir það fyrir hin minni gufuskip sem þá voru í förum.  Var hún ævinlega nefnd Hafskipabryggjan og stendur enn (2010) einn einmana staur upp úr sandfjörunni þar sem bryggjan var.

Gamli öldubrjóturinn.

       Landbrot af völdum sjávargangs varð til þess að árið 1917 var hafin á Sauðárkróki gerð öldubrjóts fram af eyrinni norðan kauptúnsins.  Var fé til verksins safnað meðal heimamanna, m.a. var ágóði af leiksýningum á vegum verslunarmannafélagsins á staðnum notaður til að borga fyrir grjótburð út í sjó enda voru það einkum eignir kaupmanna og verslunarfélaga í þorpinu sem voru í hættu vegna landbrotsins. Notuð var sú aðferð að fylla timburbúkka með grjóti og um skeið leit út fyrir að þessi aðferð myndi reynast vel því möl og sandur settist að timburkláfunum og eyrin lengdist ár frá ári eftir því sem bætt var við garðinn.  En traust var þetta mannvirki ekki og veturinn 1929-1930, þegar varnargarðurinn var orðinn um 60 m að lengd, sýndi hafið afl sitt og braut í hann stórt skarð.  Eftir það gekk hratt á trékistugarðinn þannig að ljóst varð að að þetta væri ærið haldlítil aðferð til að verja spildur Krókskaupmanna fyrir haföldunum.

Hafnargerð.

       Árið 1928 gerði Finnbogi R. Þorvaldsson verkfræðingur athugun á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki í því skyni að kanna möguleika á því að byggja þar öldubrjót og gera örugga höfn.  Árið eftir lagði Vitamálaskrifstofan fram áætlun um framlengingu gamla öldubrjótsins með varnargarði úr steinsteyptum kerjum og bryggju innan á.  Var þessi gerð valin vegna þess hve erfitt var að nálgast nothæft grjót til hafnargerðar á Sauðárkróki.

       Um þessar mundir var orðinn talsverður áhugi á því meðal Sauðkrækinga að gerð yrði höfn á staðnum og sveitarstjórnarmenn og aðrir áhrifamenn tóku að vinna að því að sett yrðu lög um verkefnið þar sem m.a. væri ákvarðað að hve miklu leyti kostnaður við hafnargerðina yrði greiddur úr ríkissjóði. Gerðar voru þrjár atrennur að því að flytja frumvarp um málið á Alþingi, 1929, 1930 og 1931 en þá hlaut það loks samþykki.  Ástæðan fyrir þessum þæfingi var einkum ágreiningur meðal þingmanna um það hversu hátt hlutfall kostnaðar við hafnarframkvæmdir ríkissjóður ætti að greiða og um ríkisábyrgð á skuldum hafnarsjóða.  Árið 1929 voru samþykkt á Alþingi lög um hafnargerð á Skagaströnd þar sem kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs var ákvörðuð 40%.  Um það hafði verið talsverð togstreita en nú gerðu flutningsmenn lagafrumvarps um hafnargerð á Sauðárkróki ráð fyrir sama framlagi og hélt þá deilan áfram.

 Sýndist sitt hverjum um þá stefnu að auka ríkisútgjöld á þessum vettvangi og er bersýnilegt að aukinn vilji til hafnarframkvæmda víða um land á þessum árum bauð heim mikilli togstreitu og hrepparíg um hið takmarkaða fé sem kostur var á og sýndi þetta sig alloft í löngum en innihaldsrýrum umræðum á Alþingi.

       Eftir setningu hafnalaga fyrir Sauðárkrók og áætlanagerð Vitamálaskrifstofunnar um framkvæmdina leið að því að hafnargerðin hæfist.  Vorið 1935 var lagður vegur að fyrirhuguðu hafnarstæði og árið 1936 tókst loks að afla nægilegs fjár til þess að hægt væri að byrja á hafnargarðinum og var það gert snemma árs 1937.  Magnús Konráðsson verkfræðingur á Vitamálaskrifstofunni sá um hönnun hans og hafði umsjón með framkvæmdinni fyrir hönd stofnunarinnar.  Garðurinn var þannig byggður að gerð voru tvö timburþil á grenistaura sem reknir voru niður með fallhamri og fyllt í rýmið milli þeirra með möl og sandi og steypt á það þekja.  Fékkst þannig brimvarnargarður sem einnig var bryggja og varinn með steypuklossum og grjóti sem sótt var í Hegranesið, en það takmarkaði nokkuð möguleika í hafnargerð á Sauðárkróki á þessum tíma hve erfitt var að verða sér úti um nothæft grjót nærri byggingarstaðnum.  Ástæða þess að Magnús Konráðsson fór þessa leið við gerð brimvarnargarðsins en kaus að nota hvorki steypt ker eða járnþil voru þær að reynslan þótti hafa sýnt að timbur stóð sig allvel sem byggingarefni í hafnarmannvirkjum á Norðurlandi en járn og stál hafði hækkað mikið í verði vegna vígbúnaðarins sem hafinn var í Evrópu og verkfræðingurinn var sannfærður um að yrðu notuð steinsteypt ker myndi verkið taka mörg ár.  En raunin var sú að því lauk árið 1939 þrátt fyrir að vetrarveður reyndist rysjótt og ylli nokkrum töfum og skemmdum á mannvirkinu.  Ætlunin hafði verið að fá dýpkunarskip Vestmannaeyjahafnar til að dæla efni í þilið en ekki varð úr því og var því fyllt í þilið með efni úr Gönguskarðsáreyri og vörubílar notaðir til að flytja það.

       Þegar að því kom að flytja steinsteypuklossa og grjót í brimvörnina utan á garðinum var útbúinn dráttarvagn sem gekk á spori og var dreginn af vörubíl.  Var steypuklossunum, sem voru um 5 tonn að þyngd, síðan lyft út á fleka með kraftblökk í mastri.  Á flekanum var einnig kraftblökk sem notuð var til að slaka steinunum niður með garðinum en þar fyrir á sjávarbotni var Einar Eggertsson kafari sem sá um að raða steypuklossum í grjótvörnina.  Ýmiss konar vélar og tæki voru þannig notuð til að létta störfin og auka afköstin en hin nákvæma lýsing Magnúsar Konráðssonar á vinnulagi við hafnargerðina ber það með sér að mannvirkið var þó að verulegu leyti handunnið.

       Eins og algengt er þegar byggð eru mannvirki út frá ströndinni á stöðum þar sem saman fara miklir hafstraumar og efnisframburður hefur gerð hafnarmannvirkja á Sauðárkróki og viðhald þeirra og rekstur verið ýmsum vandkvæðum háð og mannvirkin hafa haft afgerandi áhrif á ströndina og þróun hennar.

       Jafnskjótt og hafnargarðurinn var kominn fór efni að setjast að honum og eyri myndaðist utan hans. Einnig kom á daginn að möl og sandur úr framburði Gönguskarðsár settist í höfnina í nokkrum mæli eftir að eyrin var orðin jafnlöng hafnargarðinum.Þetta hefur orðið til þess að viðhald og þróun hafnarmannvirkja á Sauðárkróki hefur reynst umfangsmeira og erfiðara en á mörgum öðrum stöðum hérlendis.

       Byrjað var á gerð svokallaðs sandfangara árið 1945 í því skyni að hefta efnisburðinn inn á hafnarsvæðið en þá voru farnar að berast til Vitamálaskrifstofunnar kvartanir yfir því að dýpi í Sauðárkrókshöfn væri minna en sýnt væri á kortum.  Á komandi árum voru gerðar margar atrennur að því að lengja sandfangarann og hafnargarðinn.  Í þann síðarnefnda fór árið 1948 einn af bresku steinnökkvunum sem Óskar Halldórsson útgerðarmaður hafði forgöngu um að útvega frá Normandíströnd og litlu síðar, eða árið 1950, kom í ljós að það væri málum blandið að timbur væri varanlegt efni til mannvirkjagerðar í sjó við Norðurland því tréþil Sauðárkróksbryggju var allmjög eytt og var þá sett stálþil um hana.

       Vegna hinna sérstöku aðstæðna á Sauðárkróki var snemma leitað til erlendra sérfræðinga eftir ráðum um það hvernig skyldi standa að gerð hafnarmannvirkja þar.  Danski verkfræðingurinn Per Bruun, sem síðar lagði oft á ráð um hafnargerð á Íslandi, gerði athugun á staðháttum á Króknum snemma árs 1953 og Aðalsteinn Júlíusson vita- og hafnamálastjóri kom því til leiðar á árunum upp úr 1960 að gerðar voru á Laboratoriet for Havnebygning í Kaupmannahöfn ýmsar athuganir sem byggðar voru á mælingum í Sauðárkrókshöfn og nágrenni hennar og skiluðu vísindamenn stofnunarinnar skýrslu um niðurstöður sínar og tillögur árið 1962.  Athuganir erlendu sérfræðinganna voru hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi þróun Sauðárkrókshafnar, en fram að byggingu Syðribryggju, sem er syðri viðlegukantur hafnarinnar og var í fyrstu kallað Suðurgarður, árið 1969 fólust aðgerðir einkum í dýpkunarframkvæmdum með sanddælu- og grafskipum og stórum krönum sem mokuðu upp úr höfninni frá landi.  Árið 1962 var til dæmis dýpkað allmikið og um leið útbúin bátahöfn og árið 1968 var aftur dýpkað rækilega í tengslum við byggingu Suðurgarðsins og lengingu sandfangarans.

       Varnarvirki Sauðárkrókshafnar, Norðurgarðurinn og Sandfangarinn, eru sá hluti hafnarmannvirkjanna sem oftast hefur þurft að viðhalda og endurbæta á undanförnum áratugum.  Er það að vonum sé litið til þeirra umhverfisþátta sem mestu ráða um álag á mannvirkin og þróun þeirra, þ.e. ölduáraunarinnar og árframburðarins.  Efni safnast jafnan að sandfangaranum og verður því að lengja hann annað veifið en talsvert land hefur myndast að baki hans og er hafnarsvæðið á Sauðárkróki og nágrenni þess dæmi um það hve miklum breytingum hafnarmannvirki geta valdið í umhverfi sínu.

       Nothæft grjót í varnargarða hefur ekki fundist í nágrenni Sauðárkróks. Hefur það verið sótt út á Skaga, rúmlega 40 km leið.  Eru hafnargerðarmenn því enn í sporum Magnúsar Konráðssonar verkfræðings sem gerði mikla en árangurslausa grjótleit í nágrenni Sauðárkróks í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar en hafa nú yfir að ráða tækni til að yfirstíga grjótekluna og nota stóreflis vörubíla til að flytja byggingarefnið úr námunni í Tófulág við Hvalnes, en það kostar sitt og Skagavegurinn hefur fram til þessa vart borið þunga grjótvagnanna og hafa verktakar hyllst til þess að nema grjót úr Tófulág þegar frost er í jörðu.

       Ný smábátahöfn var gerð árið 1987 með því að byggð var bátakví innan Suðurgarðs. Var gerð þar kví og settar út flotbryggjur en smábátaútgerð var þá í sókn á Sauðárkróki eins og víða annars staðar á landinu. Öflug togaraútgerð hefur verið þar um áratugaskeið sem hefur kallað á ýmsar hafnarframkvæmdir. Nú hefur stálþil verið rekið utan um Suðurgarð (Syðribryggju) og brimvarnargarðurinn - Norðurgarðurinn - hefur verið lengdur um 120 m.

       Á árunum 2008 og 2009, eftir miklar líkanarannsóknir hjá Siglingastofnun var byggður 365 metra langur sjóvarnargarður út frá landinu þar sem áður var Hafskipabryggja Sauðárkróks, og eru ytri mörk innra hafnarsvæðis.  Er garður þessi nefndur Suðurgarður og hefur gjörbreytt allri aðstöðu innan hafnarinnar, en algengt var að skip slitu landfestar ef þung hafalda var inn fjörðinn en þá myndaðist frákast frá ströndinni sem lagði inn í höfnina.

       Einnig er Sauðárkrókshöfn mikilvæg flutningahöfn og hefur hafnarsvæðið verið lagað að þeirri starfsemi, m.a. með innleiðingu laga nr. 50/2004 um siglingavernd, og  gerð gámavalla.

 

Birt með góðfúslegu leyfi Kristjáns Sveinssonar, höfundar bókarinnar Íslenskar hafnir og hafnargerð.

SvŠ­i

SveitarfÚlagi­ Skagafj÷r­ur á á| á hofnin@skagafjordur.is á | á SÝmi (+354) 453 5169